Freysier

Krein fjölskyldan


21.11.08
 
K-R-E-P-P-A

Ég vil minna mótmælendur á Austurvelli á að það er afskaplega mikilvægt að hafa í huga að bílar og hús eru ekki grýtt þegar kastað er í þau eggjum, en það er einmitt það sem fyrrverandi menntamálaráðherra hefur til málanna að leggja, sbr. http://bjorn.is/dagbok/nr/4708. Og grýttur er með 'ý'.

Ef einhver skyldi hafa í hyggju að sletta skyri þá er það með 'y', stafað s-k-y-r.


7.8.08
 
Mig langar í apa

Ég hef átt mér þann draum í tæpan sólarhring að eignast apa. Ekki þó í sama skilningi og að eignast hund eða kött. Nei, það eru gæludýr sem maður/api á. Apinn minn væri vinur minn sem byggi með okkur Hlíf. Við bærum gagnkvæma virðingu hvor fyrir öðrum. Þegar ég kæmi heim úr vinnunni gæti ég gefið honum five, ég gæti manað hann að bíta í rassinn á Hlíf, við sætum saman í hægindastólunum okkar á laugardögum og horfðum á Liverpool, við fengjum okkur bjór, hann og Hlíf gætu hlegið saman að öllum bröndurunum mínum ... Hann þyrfti aldrei að vaska upp.

En þetta er víst bannað. Hlíf heldur að mig langi í barn.


18.7.08
 
Pósturinn Páll
„Brosa og hlæja allir er Palli veifar ...“

Af hverju veifa þeir ekki bara til baka?


16.7.08
 
Mér líkaði illa í bernsku að vera kallaður Einsi og mömmu reyndar líka (þ.e. að ég væri kallaður það þótt hún kalli mig nú stundum Einsa Freysa). Það gerðist heldur ekki oft enda heimtaði ég 50 krónur af öllum sem kölluðu mig Einsa, að ráði mömmu.

Ég rifja þetta upp vegna þess að fyrir stuttu dreymdi mig miklu, miklu betra uppnefni/gælunafn, ég var nefnilega kallaður Eining. Ég var mjög ánægður með nafnið í draumnum og þeir sem vilja mega kalla mig Einingu. Þeir sem hins vegar kalla mig Einsa verða 50 krónum fátækari.


13.7.08
 
Stórir draumar

Árið 1998 var Skólabók Holtaskóla 1997–1998 (grunnskólans míns í Keflavík) gefin út. Nemendur voru beðnir um að svara spurningunni: Hvar eða hvað verður þú eftir tíu ár? Það er skemmtilegt að skoða bókina nú tíu árum síðar og skoða svörin (og auðvitað myndirnar og rifja upp hverjir voru með manni í skóla); þeir eru ekki margir sem virðast reyna að svara raunsætt en þó gera það sumir, greinilegt að margir vildu verða tölvu(nar)fræðingar á þessum tíma. Samkvæmt mörgum svaranna ættu menn ýmist að vera í ræsinu eða forríkir og frægir nú. Það hafa því fáir „staðið við sitt“. Það gerði ég þó því að ég sagði ég að ég yrði aðdáandi hljómsveitarinnar Radiohead og starfandi í B-video (jamm, ég veit, frábært svar) en á þessum tíma eyddum við vinirnir (og margir fleiri, sérstaklega fótboltastrákar) mörgum stundum — og örugglega mörgum peningum — á videoleigu í Keflavík, K-video.

Já, ég hef staðið við mitt þar sem í umræddri bók, og það bara á síðunni á undan svarinu mínu, sagðist Björn Ísberg ætla að vera búinn að taka yfir K-video og breyta því í B-video að tíu árum liðnum. Hann tók auðvitað aldrei yfir reksturinn en í einfeldni minni treysti ég honum. Það er eingöngu við hann að sakast að ég er ekki starfsmaður B-video nú.

Til þess að sanna að ég hefði staðið við „stóru orðin“, þ.e. að ég væri aðdáandi sveitarinnar, skellti ég mér til Hróarskeldu fyrir stuttu en þar fór ég einmitt á Radiohead-tónleika með B-Ísberg.

Efnisorð: ,




11.3.08
 
Drekasöngvar – Lang Lang í Kína
Hvers konar nöfnum ætli börnum sé strítt á í Kína?


26.2.08
 
Ég vildi að ég væri Dustin kalkúnn, þó ekki væri í nema einn dag.


15.12.07
 
Þá er komið að því. Tískuorð ársins 2007 eru ...

... heildstæður og aðkoma.

Til dæmis:
Vilja skoða heildstætt fyrirætlanir OR.
Heildstætt og hagnýtt háskólanám.

Verklagsreglur um aðkomu opinberra aðila þegar hvali rekur á land.
Forsendur fyrir aðkomu lífeyrissjóða brostnar.

Mér finnst þessi orð alveg óborganleg. Það líður ekki sá dagur sem ég heyri þau ekki. Rosalega hljóta menn að hafa verið óvarkárir áður fyrr, þ.e. þegar þeir létu sér nægja að rannsaka hitt og þetta án þess að það hafi verið gert heildstætt.


29.11.07
 
Hver er eiginlega Steingrímur Ragnar Gestsson?
Súkkulaði í verðlaun fyrir rétt svar.


29.10.07
 

Ég sem missti af Airwaves ...
Gunnar Einar Annelsson tekur sig alveg sérstaklega vel út á myndinni, elgtanaður og helmassaður. Myndin er úr nýjasta hefti Séð og heyrt. Ekki nóg með að vinur manns sé í blaðinu heldur „kemst“ svo loksins einhver úr fjölskyldunni í blaðið. Jebb, þetta er víst bróðir minn sem nuddar þarna vinstri rasskinnina á Halla Valla.

Efnisorð:




3.9.07
 
Svona var ráðstefnan í London





















Á fjórum dögum hlustuðum við á um 30 fyrirlestra í málfræði, flesta í setningafræði (sbr. myndina hér að ofan).


16.7.07
 
Ég er nýkominn af Hróarskelduhátíðinni í Danmörku og í næsta mánuði er það svo annað festival, LAGB-hátíðin. Þar verður aldeilis sukkað! Aðstandendur hátíðarinnar hafa sett „lænöppið“ og dagskrána á netið (http://www.kcl.ac.uk/content/1/c6/02/78/38/kclprognew.pdf) og þar kemur einnig fram hverjir munu „headlæna“. Fram koma margir þekktir málvísindamenn sem einkum stunda rannsóknir við breska háskóla en tveir fyrirlesarar koma frá Háskóla Íslands.

Þetta var djók með að það yrði sukkað. Um er að ræða málvísindaráðstefnu (eða málfræði-) sem verður haldin í London 29. ágúst–1. september nk. en LAGB stendur fyrir Linguistics Association of Great Britain.

Þegar ég var á Hróarskeldu fyrr í mánuðinum hugsaði ég stundum um hvað múgæsingur á popptónleikum getur verið fáránlegur. Dæmi: Bob Dylan stígur fram á sviðið og segir: Hi, I'm Bob Dylan. Þá tryllist allt og fólk öskrar og klappar, þó ekki vegna þess að það hafi efast einhverja stund og hugsað: Hm, er þetta kannski ekki örugglega Bob Dylan? Er ég kannski að fara mannavillt?

Svona lagað gerist hins vegar sjaldan á málfræðiráðstefnum. Ef Anders Holmberg (þekktur málvísindamaður) stígur upp í pontu og segist heita Anders Holmberg fær hann engin viðbrögð frá áheyrendum nema kannski í besta falli: Yeah, I know.

En já, við erum nokkur að fara, tveir kennarar og fjórir nemendur. Til að fjármagna ferðina fundum við mjög góða leið og vonandi munu fleiri íslenskunemar geta fetað sömu leið síðar.

Efnisorð:




11.6.07
 

Fimmta markið sem Svíar skoruðu í landsleiknum gegn Íslendingum í síðustu viku var stórskrítið og verður örugglega lengi í minnum haft. Í aðdraganda marksins sóttu Svíar að marki Íslands en Ívar Ingimarsson náði boltanum inni í vítateig okkar en hélt þá að dómarinn hefði dæmt aukaspyrnu. Hann spyrnti því boltanum frá sér, ætlaði einhverjum öðrum að taka spyrnuna, boltinn barst til eins Svíans sem gaf svo á Marcus Allbäck sem bað um boltann. Allbäck vissi nefnilega af misskilningi Íslendinga og nýtti sér það þegar hann skaut boltanum í mark okkar án þess að við gætum varist. Í viðtali eftir leikinn var svo Ívar skömmustulegur en Allbäck skælbrosandi. (Hér má sjá markið.)

Mér finnst þessi misskilningur Íslendinga eftir allt saman ekki svo svakalega furðulegur en það sem mér finnst eiginlega furðulegast er að ég hef engan heyrt minnast á að Svíar, og þá auðvitað sérstaklega Marcus Allbäck, ættu að skammast sín fyrir markið. Mér finnst óheiðarlegt að nýta sér svona misskilning til þess að skora mark, mér finnst þetta eiginlega eins og að ráðast aftan að manni sem getur ekki varið sig þess vegna. Og nú geri ég ráð fyrir að langflestir séu ósammála mér.




25.5.07
 
VISSIR ÞÚ AÐ ...

... Karl Wernersson (44), sem talinn er 6. ríkasti Íslendingurinn nú um stundir, á kraftmesta Hummer landsins, með 650 hestöfl undir húddinu?!?


12.5.07
 
Gítarsólóið

Íslenska þjóðin er í öngum sínum eftir útreiðina sem Valentine Lost fékk í Eurovision á fimmtudaginn. Það eru margar hugmyndir uppi um það hvers vegna í ósköpunum íslenska lagið komst ekki áfram; sumir tala um að austur-evrópsk mafía, sem veit ekki aura sinna tal, vinni markvisst gegn okkur og öðrum þjóðum í Vestur-Evrópu, aðrir um að textinn hafi ekki verið góður. Ég held að allir séu sammála um að textinn var mjög slappur en það er spurning hve þungt það vegur. Enginn lætur það hvarfla að sér að lagið hafi ekki verið nógu gott.

Ég hef hins vegar aðra skýringu á lélegu gengi okkar: Gítarsólóið var allt of stutt. Í keppninni hér heima var gítarsólóið í Ég les í lófa þínum um 20 sekúndur en það er ekki nema 10 sekúndur í ensku útgáfunni.
Hlustið bara sjálf:

Íslenskt gítarsóló
Útlenskt gítarsóló