Freysier

Krein fjölskyldan


13.11.03
 
Idol

Allir hafa skoðun á Idol stjörnuleit. Mér finnst Idolið mjög skemmtilegt sjónvarpsefni. Það hefur líka sennilega sitt að segja hve fámenn þjóð við erum, maður þekkir einn hér, annan þar. Mér fannst t.d. bandaríska útgáfan, American Idol, frekar leiðinleg áhorfs.

-----

Mér fannst það illa gert að vísa Arnari Dór úr keppni. Hann braut reglurnar, á því er enginn vafi. En að vísa manni úr keppni hlýtur að vera algjört neyðarúrræði sem gripið er til þegar ekki er annarra kosta völ. Það hefði t.d. verið hægt að ítreka það við aðra keppendur, sem og Arnar, að þetta yrði ekki liðið héðan af – í þetta sinn væri þó gefinn séns. Þannig hefði verið auðveldlega hægt að koma í veg fyrir einhvers konar kosningabaráttu. Það er skiljanlegt að stjórnendur vilji búa til skemmtilegt sjónvarpsefni, t.d. með því að veita sumum keppendum meiri athygli en öðrum. Þetta hefur verið gert í þáttunum; sumum var t.a.m. fylgt á heimaslóðir í fyrstu þáttunum. En þetta er ekki endilega sanngjarnt. Þess vegna virkar þessi ástæða fyrir brottvikningu Arnars Dórs ákaflega smásmuguleg. Ég held m.a.s. að það hafi ekki gert þeim sem með völdin fara erfiðara fyrir hve óþekktur Arnar var miðað við þá sem hvað þekktastir voru og eru og þ.a.l. ekki jafn vinsæll meðal þorra áhorfenda. Þetta er þannig ákveðin auglýsing fyrir þættina (ath. að ekki skiptir alltaf öllu máli að hljóta jákvæða umfjöllun).

Þetta viðtal við Arnar Dór sem birtist í Víkurfréttum er samt ekki alveg sambærilegt við viðtalið sem birtist í Morgunblaðinu við annan þeirra sem komist hafði áfram í fyrsta hópi 32 manna úrslita þar sem það viðtal var tekið eftir að úrslit urðu ljós og því ekki hægt að saka viðkomandi um að reka kosningabaráttu. Viðtal samt sem áður og gátu stjórnendur komist í kringum reglurnar með því að fá Morgunblaðið til að birta viðtöl við alla þá keppendur sem komast áfram í átta manna úrslit.

Svo tel ég heldur ekki rétt að nefna í þessu sambandi stelpuna sem „leikur“ í myndböndunum Partý út um allt með Love Gúrú og Einverunni með Á móti sól því ég held að þau hafi verið komin í sýningu a.m.k. þegar þættirnir hófu göngu sína á Stöð 2. Ódýr kynning samt sem áður.

Mér fannst Arnar Dór koma mjög vel út úr viðtalinu í Íslandi í dag 6. nóvember sl., sérstaklega þegar hann endaði viðtalið á „jákvæðum nótum“ með því að lýsa yfir ánægju sinni með keppnina, rétt eftir að búið var að rústa vonum hans og væntingum, fyrir framan manninn sem gerði það.

-----

Þegar opinská ummæli dómaranna eru rædd vilja ýmsir meina að keppendur sjálfir kalli þetta yfir sig. Margir keppendur eru jú hræðilegir söngvarar en þeir tækju varla þátt nema þeir héldu annað. Því hlýtur það að koma þeim mörgum hverjum í opna skjöldu að heyra óvægna gagnrýnina. Allt er þetta fest á filmu, það vita allir, en hver veit hvernig hann/hún bregst við þegar svo allhressilega á móti blæs og það fyrir framan myndavélarnar? Sumir eiga svo bara lélegan dag enda mikið stress í gangi. Á fólk bara að sitja undir ónærgætnum athugasemdum Bubba eins og ekkert sé? Ég get ekki séð tilgang með því að brjóta fólk niður fyrir framan alþjóð. Ég man líka ekki betur en Bubbi hafi lýst því yfir í blaðaviðtali að sér þætti enginn tilgangur í því að niðurlægja fólk. Mér hefur hins vegar sýnst hann einmitt gera það.

Bubbi er náttúrlega alltaf að reyna að vera kúl og notar kúlið sitt óspart til að gera lítið úr keppendum eins og t.d. þegar hann spurði einn keppanda sem var nýbúinn að syngja hver væri hans aðalgrein í frjálsum (sá er sko frjálsíþróttamaður) og hann svarar 400 m hlaup eða eitthvað slíkt og þá segir Bubbi honum að halda sig við það. Þetta þykir mér lítilsvirðing, vægast sagt.

En nóg af Bubba lubba í bili. Mér finnst Þorvaldur koma langbest út úr þessu sem dómari. Hann virðist einfaldlega hæfastur. Vanur maður á ferð sem veit greinilega að hverju hann leitar. Hann hefur reynslu sem upptökustjóri, hefur t.d. tekið upp með Írafári. Hann virðist líka bera virðingu fyrir fólki, hvort sem söngurinn liggur fyrir því eða ekki.

Um Siggu sammála hef ég ekki mikið að segja. Æ jú, hún rýfur nú sex ára útgáfuþögn með nýrri plötu, Sigga fyrir þig. Það má vel grenja úr hlátri yfir þessari nafngift sem minnir einna helst á gamanþættina Fóstbræður. Hún myndi sóma sér vel með plötuheiti Sigga litla Sörensen, Ekki lítill lengur, og náungans sem trallaði og leikinn var af Þorsteini Guðmundssyni, Ég tralla fyrir þig. Ég vil þó hrósa Siggu fyrir frábæra tímasetningu.

En áður en ég læt staðar numið í gagnrýni minni á gagnrýnendurna langar mig að spyrja nokkurs sem kemur þessu öllu saman ekkert við: Myndi það ekki hæfa söngnum betur í lagi Bubba, Þúsund kossa nótt, að syngja í viðlaginu: „Ég er með niðurgang“?

-----

Tommi var að viðra skoðanir sínar á Idolinu (sjá hér). Hann var að velta því fyrir sér hvort ekki væri bara verið að búa til aðra Birgittu Haukdal úr tilvonandi stjörnu sem ekkert kann á hljóðfæri og semur ekkert sjálf. En af hverju þarf að gera slíkar kröfur?

Tenórarnir þrír svokölluðu eru nú hálfgerðar poppstjörnur, allavega Pavarotti. Það hvarflar þó ekki að neinum að setja út á það þó þeir spili hvorki á hljóðfæri né flytji lög eftir sig sjálfa. Við skulum nú heldur ekki gleyma Elvis Presley. Hann gat að vísu glamrað á a.m.k. gítar og píanó en ekki samdi hann lögin sem hann gerði svo fræg. Ég vil nú líka meina að þrátt fyrir að Sinfóníhljómsveit Íslands hafi innan sinna raða marga af fremstu hljóðfæraleikurum landsins sé hún koverlagaband. Svo er ég nú ekki frá því að mér liði ögn betur í dag ef Birgitta Haukdal hefði ekki samið enskan textann við Eurovision-lagið okkar í ár („show me the pain“!?) og látið sér einungis nægja að syngja.

-----

Ég held að það hafi í raun gildi í sjálfu sér að vinna Idolið en þá er þó takmarki „mótshaldara“ ekki náð því það á að búa til stjörnu. Arnar Dór og flestir aðrir munu ekki vinna Stjörnuleitina í ár. Hann er þó eiginlega kominn með viðurkenningarstimpil upp á það að hann geti sungið, sést það vel á því að hann er kominn með hlutverk í skólauppfærslu af Hárinu. Sigurinn skiptir ekki endilega mestu máli þegar öllu er á botninn hvolft. Ég spái því t.d. að nafn Clay Aikens muni lifa lengur í hugum okkar en Ruben Studdards þó Ruben geti alltaf yljað sér við minninguna um sigurinn í American Idol.