Freysier

Krein fjölskyldan


17.2.07
 
Það er nú ekki oft sem mér tekst að sameina tvö af áhugamálum mínum, Eurovision og málfræði, en ég ætla a.m.k. að gera tilraun til þess.

Árið 1967 sigraði Sandie Shaw í Eurovision er hún flutti framlag Breta, Puppet on a String. Stuttu síðar hafði textinn verið íslenskaður og lagið kom þá út í flutningi Hljómsveitar Ingimars Eydal en nú kallaðist lagið Þú kysstir mig.

Ég heyri ekki betur en Helena Eyjólfsdóttir syngi: Ég dansa í öðrum heimi / og dreymi um þig.

Ef það er rétt er þetta dæmi um svokallaða nefnifallshneigð (eða nefnifallssýki) því að „rétt“ er að segja mig dreymir og þ.a.l. byggist maður við ég dansa og dreymir um þig.

Að vísu er möguleiki á því að mér misheyrist, sérstaklega ef litið er á allt rímið í viðlaginu:

Ég dansa í öðrum heimi
Og dreymi(r) um þig
Alveg dásamlegt algleymi
Það streymir um mig
Eftir að þú kysstir mig

Hér væri sem sagt eðlilegast að gera ráð fyrir því að við streymir rímaði dreymir (en ekki dreymi) en ég heyri ekki betur en að hér sé dæmi um áðurnefnda nefnifallshneigð :) (Hlustið hér á lagið.)


16.2.07
 
Ég er að fara á grímuball í kvöld. Úff, ég á nú ekkert sérlega góðar minningar frá öskudeginum og öðrum tilefnum sem ég hef notað til þess að klæðast grímubúningi. Ætli ég hafi ekki verið fjórum sinnum í röð indjáni! Og það var sko ekki af því að ég hafi verið svona rosalega hrifinn af menningu indjána. Fyrsta skiptið hefur örugglega verið skemmtilegt, en veit ekki alveg með hin þrjú...

Ég er búinn að vera að velta því fyrir mér hvernig ég geti mætt á ballið í kvöld. Það fyrsta sem ég afskrifaði var auðvitað gamli indjánabúningurinn. Svo hafði mér dottið í hug að vera Zorro eins og ég var fyrir mörgum árum en ég afskrifaði það líka vegna þess að í millitíðinni var gefin út vinsæl en, að mér skilst, slöpp kvikmynd.

Á morgun er úrslitakvöld Söngvakeppni Sjónvarpsins og þá er auðvitað alveg tilvalið að vera einhver Eurovision-stjarna. Ég var að pæla í því að vera Sandra Kim (sem sigraði fyrir Belgíu árið 1986) en hætti svo við þar sem það er kannski ekki svo sniðugt að reyna að líkjast 13 ára stelpu (já, Gleðibankinn tapaði fyrir stelpu).

Næst lá náttúrlega beint við að vera Eiríkur Hauksson þar sem ég er farinn að (þykjast?) hafa gríðarlegan áhuga á manninum. En ég á engar leðurbuxur :(

Rauða hárið á Eika væri ekkert vandamál. Einu sinni fór ég á grímuball Barnastúkunnar og komst hjá því að borga 100 krónur og borgaði í staðinn aðeins 50 krónur (já, hann Hilmar var sniðugur) en þá ætlaði ég að vera aðalkötturinn í Thundercats. Sá var rauðhærður svo mamma makaði bara rauðum matarlit í hárið á mér sem ég var marga daga að losna við. En enginn virtist átta sig á því hver ég var (eða ætlaði að vera). Þvílík vonbrigði! Ekki nóg með það heldur hellti einhver (ekki bara einhver, ég veit hver þetta var) Sprite á mig. Æi, grímubúningar hafa verið eintóm vonbrigði hingað til.

En nú er ég búinn að hætta við Eurovison-búning og ákveða að vera eitthvað allt annað. Segi samt ekki hvað, ekki strax.


13.2.07
 
Ég heyrði Sjúbbídú, eitt allra lélegasta framlag Íslendinga til Eurovision, um helgina. Þá rifjaðist upp fyrir mér ótrúlega fyndið bragð til að komast fram hjá gömlu reglunum um að hver þjóð flytti lag á móðurmálinu. Þetta bragð er m.a.s. orðað í viðlaginu: Sjúbbídú menn skilja jafnt á Skagaströnd og Timbúktú.

Í textanum koma fyrir fjölmörg nöfn sem þekkt eru á alþjóðavísu (þetta er bara upphaf lagsins): Louis hann söng margt, sjúbbídú ahh, Sarah og Ella með. Frankie hann söng New York, New York ... Söng ekki Nat Cole með? Manstu eftir Elvis syngja Love me Tender?

Sverrir Stormsker beitti sama bragði í keppninni 1988 í laginu Þú og þeir, þ.e. að syngja á alþjóðsku: Ég dái Debussy, ég dýrka Tchaikovsky og Einar Ben [ég veit ekki alveg hversu þekktur hann er í útlöndum en það er auðvitað aldrei að vita, sakar ekki að reyna] og Beethoven ... Ég tilbið Harold Lloyd, ég tilbið Sigmund Freud og John Wayne og Mark Twain og þig og Michael Caine. Syngjum öll um Sókrates, sálarinnar Herkúles ...

Sverrir virðist samt ekki hafa grætt neitt sérstaklega á þessu bragði, við lentum náttúrlega í 16. sæti með aðeins 20 stig. Hins vegar virkaði það óaðfinnanlega árið 1996 en líklega má skrifa öll stigin sem við fengum í keppninni það ár (við fengum 51 stig!) og sætið þrettánda á Elvis og félaga. Hvernig í ósköpunum ætti annars að skýra þetta góða gengi?