Freysier

Krein fjölskyldan


22.11.04
 
Var að hlusta á Poppland fyrr í dag og þar voru tónleikar Beach Boys í gærkvöldi sagðir frábærir. Danni í Maus og Eyjólfur Kristjánsson gáfu báðir tónleikunum einkunnina 9,5 og vildi Danni m.a.s. meina að Mike Love væri aðalmaðurinn í Beach Boys en ekki Brian Wilson; BW hefði samið flest lögin en ML séð um textana. Gagnrýni mín var þá e.t.v. of harkaleg.



19.11.04
 
Komiði sæl.

Mig langar að benda á síðuna Timarit.is. Á forsíðu stendur m.a.: „Á Timarit.is er hægt að skoða og fletta í 211 blöðum og tímaritum frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi, m.a nær öllum sem gefin voru út fyrir 1920. Hundruð þúsund síðna úr þessum tímaritum eru aðgengilegar á vefnum [...] og stöðugt bætast fleiri síður við.“ Þetta þýðir sem dæmi að hægt er að skoða 1. tbl. 1. árg. Morgunblaðsins frá 1913. Þá var nú hægt að fá blaðið í lausasölu á 3 aura. Þarna eru svo auðvitað mun fleiri áhugaverð blöð og tímarit. Ég man t.d. þegar maður lærði utan að þurrar staðreyndir í FS um t.a.m. Ármann á Alþingi, Fjölni og Skírni - tímarit sem eru aðgengileg á síðunni eftir að búið er að setja upp vefskoðarann sem til þarf (sem er mjög auðvelt).

Að lokum legg ég til orðið kúklingur (borið fram þannig að það rími við kjúklingur).

Fariði sælli.



15.10.04
 
Beach Boys til Íslands?
- Gelt mjálm baulað niður

Beach Boys eru á leiðinni til Íslands en því er þó þannig háttað að hvorki Brian Wilson né hinir Wilson-bræðurnir verða með í för heldur eru Mike Love og Bruce Johnston þeir einu sem eru á leiðinni sem voru í hljómsveitinni á sínum tíma. Johnston kom inn í sveitina 1965 og Love, ásamt því að spila, samdi víst einhverja texta Beach Boys. (Eða kannski bara einhvern texta. Ég var nefnilega að skoða Beach Boys-plötuna Pet Sounds og þar er hann skráður fyrir texta við eitt lag, I’m Waiting for the Day.) Spennandi.

Brian Wilson var náttúrlega aðalmaðurinn í hinni stórgóðu hljómsveit og það væri miklu nær að fá hann til landsins en hann er að fara (ef hann er ekki þegar farinn) „á túr“ en fyrir stuttu kom út ókláruð tilraun hans/Beach Boys til meistaraverks, Smile.

Þessir „Beach Boys“-tónleikar eru líklega álíka spennandi og ef Bítlarnir kæmu til landsins, þ.e. Ringo Starr. Og hver hafði áhuga á Doors-endurkomunni í fyrra án Jim Morrison?



13.10.04
 
Rangur vettvangur

Forsetakosningar í Bandaríkjunum nálgast og hefur hópur nokkurra tónlistarmanna gripið til þess ráðs að fara í kosningaherferð sem kallast Vote for Change. Þar á meðal eru t.d. hljómsveitirnar Pearl Jam og REM og tónlistarmaðurinn Bruce Springsteen. Tilgangurinn með herferðinni er sá að fá fólk til að kjósa ekki núverandi forseta BNA, George Bush yngri.
Það er eitthvað sem segir mér að þetta sé rangt.

Mér finnst æskilegt að allir hafi skoðanir, þ.á m. tónlistarmenn. Mér finnst eðlilegt að skoðanir tónlistarmanna endurspegli list þeirra. Þannig finnst mér ekkert vera því til fyrirstöðu að hljómsveit á borð við Pearl Jam deili á núverandi Bandaríkjaforseta með lagi sínu Bushleaguer eða að Radiohead beini spjótum sínum að sama forseta með plötutitlinum Hail to the Thief (á þeirri plötu er einnig að finna fleiri en einn texta sem túlka má sem gagnrýni á Bush jr.).

Listamenn eiga að vera engum háðir, allra síst aðdáendum sínum. Ef listamaðurinn fer að taka mið af aðdáendum sínum í listsköpun sinni er ekki hægt að segja að hann sé trúr sjálfum sér eða að list hans sé „sönn“. Aðdáendur eiga að sama skapi ekki að vera háðir listamönnum. En þannig er það oft og mér sýnist einmitt áðurnefnd kosningaherferð nýta sér þá staðreynd. Stundum geta nefnilega aðilarnir sem skapa listina orðið „stærri“ en listaverkin og þá er sennilega hægt að tala um poppstjörnur.

Eins og áður segir æski ég þess að allir hafi skoðun. Það sem mér þykir gagnrýni vert við þessa kosningaherferð er vettvangurinn sem tónlistarmennirnir nýta sér. Ástæðan fyrir því að fólk mætir jafnvel þúsundum saman til að hlýða á Michael Stipe (söngvara REM), Eddie Vedder (söngvara Pearl Jam) og félaga er ekki sú að þeir hafi eitthvað gáfulegt að segja um t.d. nýjar stjórnmálafræðikenningar heldur sú að list þeirra hefur haft áhrif á fólkið. Mér þætti ekkert óeðlilegt ef Stipe mætti í umræðuþátt í sjónvarpi þar sem hann setti skoðanir sínar fram á málefnalegan hátt. Á þeim vettvangi væri hann aðeins óbreytti borgarinn Michael Stipe en ekki söngvari REM.

Setjum nú dæmið fram öðruvísi. Ímyndum okkur að Davíð Oddsson væri gestur í Kastljósinu í sjónvarpinu til að ræða t.d. utanríkismál. Það væri óeðlilegt ef hann myndi mæta í bol sem auglýsti nýjasta skáldverkið hans og einnig ef hann myndi auglýsa í lok þáttarins að daginn eftir myndi hann árita verkið sitt í tiltekinni bókaverslun. Auðvitað þætti okkur þetta fáránlegt enda væri Davíð í þessu tilviki að misnota aðstöðu sína þar sem hann hefði verið boðaður í þáttinn sem stjórnmálamaðurinn, ekki rithöfundurinn, Davíð Oddsson. En ef við höldum áfram, nú með rithöfundinn Davíð Oddsson, þá væri það sömuleiðis fáránlegt ef hann, um leið og hann áritaði skáldsögu sína, myndi dreifa stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins. Aftur væri Davíð að misnota aðstöðu sína.

Hver og einn þegn samfélagsins hefur rétt á því að láta í ljós skoðun sína en máli skiptir hver vettvangurinn er.


-----------------------------------------------------------------------------
Ég hef verið Freysier Krein. You're simply the best (Tina Turner).



15.7.04
 
Keldan

Nú er Hróarskelduhátíðin í Danmörku nýafstaðin og hvað stendur upp úr? Ja, ég fór nú reyndar ekki en það er eitt sem ég tek eftir þegar fólk talar um hve frábært hafi verið. Það virðast langflestir tala um Skelduna. Fólk ætti auðvitað að segjast hafa verið á Keldunni. Danska orðið kilde samsvarar íslenska orðinu kelda sem oft er haft í merkingunni 'lind, uppspretta'. Hér hlýtur því að vera um einhverja keldu að ræða sem kennd er við einhvern Hróar.

Efnisorð:




8.7.04
 
Lokauppgjör

Þá er EM í knattspyrnu lokið og tími til að gera upp mótið. Að þessu sinni var allt morandi í misgóðum fótboltaauglýsingum á meðan á mótinu stóð og kepptu hinar ýmsu auglýsingastofur í sérstökum leik í tengslum við Evrópukeppnina:

Besta fótboltaauglýsingin: Fiskbúðin Vör
Einnig góð: McDonald's - Official Euro 2004 Player Escort
Óvæntasti leiksigur í auglýsingu: Oliver Kahn (Impossible is Nothing - Road to Lisboa)
Langlélegasta auglýsingin: B&L
Einnig slöpp: Coke-auglýsing þar sem strákurinn kallar: goal, goal, goal!

Að auki var lítilvæg keppni milli hinna íslensku sjónvarpsþula og sérstök aukaverðlaun veitt þeim sem þótti skara fram úr á ákveðnu sviði:
Sá lýsir sem reyndi hvað minnst að leyna með hverjum hann héldi: Pétur Pétursson (Hollandi)

Annars var Evrópukeppnin sjálf mjög skemmtileg að sex leikjum undanskildum sem Grikkir spiluðu.


19.5.04
 
Brósi (öðrum nöfnum Monsi og Raggi rostpungur) er barasta orðinn tjáningur. Til hamingju með 17 ára afmælið, Gylfi!


26.4.04

15.2.04
 
Er glasið hálffullt eða hálftómt?
Ef drykkurinn í glasinu er góður er það hálftómt, ef hann er vondur er það hálffullt.


10.2.04
 
Andlát

Vinur minn, Hlynur, er látinn. Mér þykir við hæfi að minnast mannsins sem var mér svo mikill innblástur (einkum í 8. bekk) svo:

Allt í einu er komið vor
á milli puttanna hef ég hor.
Kúkur minn er linur
alveg eins og Hlynur.
Ég er voða góður að ríma
alveg eins og Bjarni.

(Þess má geta að fréttir af andláti Hlyns eru náttúrlega stórlega ýktar - hann er bara hættur að blogga!)


7.2.04
 
Freysi er 1 árs

Í dag, 7. febrúar 2004, á ég, Freysier Krein, afmæli því það er nákvæmlega ár liðið frá fyrstu færslunni. Svo heppilega vill til að Tóti (sem á ekki einu sinni afmæli fyrr en á mánudaginn!) ætlar að halda upp á tvítugsafmælið sitt í kvöld og að sjálfsögðu læt ég ekki slíkt tækifæri ganga mér úr greipum. Gestum í afmæli Tóta er þannig einnig boðið í afmæli til mín sem haldið verður á sama stað! Þrátt fyrir að leti og hirðuleysi hafi einkennt þessa síðu undanfarna mánuði er ekki þar með sagt að ekki verði haldið upp á tímamótin.

Á þessu eina ári sem liðið er hafa einungis 60 færslur litið dagsins ljós, þessi er sú 61. Það er meira en ég átti von á áður en árið var gert upp en þá kom í ljós að í júní sl. voru 15 færslur og í febrúar 13 en aftur á móti engar í maí og september á síðasta ári og janúar á þessu. Geri aðrir verr.

En núna ætla ég að fara að skoða á mér naflann og athuga minn gang varðandi síðuna.