Freysier

Krein fjölskyldan


25.11.05
 
Jólahugvakning
-Athugið að í hugvekjunni eru margar spurningar. Ekki er nauðsynlegt að svara þeim öllum.

„Tæplega 10.000 Íslendingar á öllum aldri hafa kolfallið fyrir Ferðalagi keisaramörgæsanna. Síðustu helgi var margsinnis uppselt og þurftu sumir frá að hverfa. Tryggðu þér miða í tíma um helgina því ekkert lát er á aðsókninni.“

Einhvern veginn svona eru margir viðburðir auglýstir. En þessar auglýsingar hafa fengið mig til að hugsa: Að hverjum er auglýsingunni eiginlega beint? Hver er(t) ÞÚ í tryggðu?

Auglýsingunni virðist beint að mér — en ekki bara mér heldur öllum öðrum sem hafa áhuga á kvikmyndum. Auglýsandinn virðist þannig bera mikla umhyggju fyrir mér sem öðrum því hann segir að ef ég kaupi ekki miða sem allra fyrst getur verið að ég fari fýluferð í bíóið. En fyrst ekkert lát er á aðsókn af hverju lætur auglýsandinn okkur þá vita af því? Hann gerir greinilega ráð fyrir því að það verði uppselt og hefur miklar áhyggjur af því að ÉG fái ekki miða. Ég var búinn að gleyma þessari mynd en nú langar mig svo sannarlega að sjá hana. En þeir sem fóru fýluferð um seinustu helgi eru ekki búnir að gleyma! Er þá auglýsingunni eftir allt saman ekki beint að fólki eins og mér sem hafði jafnvel ekki einu sinni heyrt um myndina? Þökk sé elskulegum auglýsanda get ég núna tryggt mér miða í tíma, þ.e.a.s. á undan hinum; það verða bara einhverjir aðrir sem fara fýluferð. Setningin „ekkert lát er á aðsókninni“ eykur líklega bara aðsóknina. Verða ekki fleiri í þetta skipti sem þurfa „frá að hverfa“? Varla geta allir tryggt sér miða í tíma?