Freysier

Krein fjölskyldan


11.6.07
 

Fimmta markið sem Svíar skoruðu í landsleiknum gegn Íslendingum í síðustu viku var stórskrítið og verður örugglega lengi í minnum haft. Í aðdraganda marksins sóttu Svíar að marki Íslands en Ívar Ingimarsson náði boltanum inni í vítateig okkar en hélt þá að dómarinn hefði dæmt aukaspyrnu. Hann spyrnti því boltanum frá sér, ætlaði einhverjum öðrum að taka spyrnuna, boltinn barst til eins Svíans sem gaf svo á Marcus Allbäck sem bað um boltann. Allbäck vissi nefnilega af misskilningi Íslendinga og nýtti sér það þegar hann skaut boltanum í mark okkar án þess að við gætum varist. Í viðtali eftir leikinn var svo Ívar skömmustulegur en Allbäck skælbrosandi. (Hér má sjá markið.)

Mér finnst þessi misskilningur Íslendinga eftir allt saman ekki svo svakalega furðulegur en það sem mér finnst eiginlega furðulegast er að ég hef engan heyrt minnast á að Svíar, og þá auðvitað sérstaklega Marcus Allbäck, ættu að skammast sín fyrir markið. Mér finnst óheiðarlegt að nýta sér svona misskilning til þess að skora mark, mér finnst þetta eiginlega eins og að ráðast aftan að manni sem getur ekki varið sig þess vegna. Og nú geri ég ráð fyrir að langflestir séu ósammála mér.