Freysier

Krein fjölskyldan


18.7.08
 
Pósturinn Páll
„Brosa og hlæja allir er Palli veifar ...“

Af hverju veifa þeir ekki bara til baka?


16.7.08
 
Mér líkaði illa í bernsku að vera kallaður Einsi og mömmu reyndar líka (þ.e. að ég væri kallaður það þótt hún kalli mig nú stundum Einsa Freysa). Það gerðist heldur ekki oft enda heimtaði ég 50 krónur af öllum sem kölluðu mig Einsa, að ráði mömmu.

Ég rifja þetta upp vegna þess að fyrir stuttu dreymdi mig miklu, miklu betra uppnefni/gælunafn, ég var nefnilega kallaður Eining. Ég var mjög ánægður með nafnið í draumnum og þeir sem vilja mega kalla mig Einingu. Þeir sem hins vegar kalla mig Einsa verða 50 krónum fátækari.


13.7.08
 
Stórir draumar

Árið 1998 var Skólabók Holtaskóla 1997–1998 (grunnskólans míns í Keflavík) gefin út. Nemendur voru beðnir um að svara spurningunni: Hvar eða hvað verður þú eftir tíu ár? Það er skemmtilegt að skoða bókina nú tíu árum síðar og skoða svörin (og auðvitað myndirnar og rifja upp hverjir voru með manni í skóla); þeir eru ekki margir sem virðast reyna að svara raunsætt en þó gera það sumir, greinilegt að margir vildu verða tölvu(nar)fræðingar á þessum tíma. Samkvæmt mörgum svaranna ættu menn ýmist að vera í ræsinu eða forríkir og frægir nú. Það hafa því fáir „staðið við sitt“. Það gerði ég þó því að ég sagði ég að ég yrði aðdáandi hljómsveitarinnar Radiohead og starfandi í B-video (jamm, ég veit, frábært svar) en á þessum tíma eyddum við vinirnir (og margir fleiri, sérstaklega fótboltastrákar) mörgum stundum — og örugglega mörgum peningum — á videoleigu í Keflavík, K-video.

Já, ég hef staðið við mitt þar sem í umræddri bók, og það bara á síðunni á undan svarinu mínu, sagðist Björn Ísberg ætla að vera búinn að taka yfir K-video og breyta því í B-video að tíu árum liðnum. Hann tók auðvitað aldrei yfir reksturinn en í einfeldni minni treysti ég honum. Það er eingöngu við hann að sakast að ég er ekki starfsmaður B-video nú.

Til þess að sanna að ég hefði staðið við „stóru orðin“, þ.e. að ég væri aðdáandi sveitarinnar, skellti ég mér til Hróarskeldu fyrir stuttu en þar fór ég einmitt á Radiohead-tónleika með B-Ísberg.

Efnisorð: ,